Svefn

Hreyfing í vatni hefur jákvæð áhrif á svefn og svefngæði aldraðra og bætir bæði lengd og gæði sé hún stunduð daglega. Með góðum svefni er hægt að draga úr líkum á td. þunglyndi og kvíða og er því til mikils að vinna. Eldri borgarar eru sérlega viðkvæmir fyrir svefnvandamálum og mjög margir glíma við svefnleysi og eiga erfitt með að sofna. Rannsókn sem gerð var í Brasilíu  sýndi fram á  betri svefngæði hjá þeim sem æfðu í vatni í samanburði við þá sem æfðu á landi. Svefntími var einnig lengri. Við hreyfingu í vatni þrisvar í viku í sex vikur er hægt að finna mikinn mun á svefngæðum, lengd á svefni og betri andlegri líðan.  

Heimildir: Chen o.fl., 2016, Alencar o.fl.,2006, Dadashpoor o.fl.,2013.

Föll

Föll eru alvarlegt vandamál meðal aldraðra og teljast næst algengasta  ástæðan fyrir meiðslum hjá þessum aldurshópi. Einn af hverjum þremur einstaklingum 65 ára og eldri falla að minnsta kosti einu sinni á ári og það hefur yfirleitt í för með sér brot á ökla, úlnlið, handlegg eða mjöðm og hefur þannig mjög mikil áhrif á daglegt líf auk þess sem brotin eru oft á tíðum lengi að gróa. Regluleg hreyfing getur dregið úr föllum þar sem hreyfing bætir jafnvægi, liðleika og styrk. Æfingar í vatni eru notaðar til að styrkja jafnvægið um leið og þær  minnka hræðslu við fall. Það sem eykur hættu á falli eru slakir vöðvar í fótum, fótleggjum, hæg viðbrögð og minni liðleiki. En við æfingar í vatni er ekki hætta á að falla og verða fyrir meiðslum þar sem vatnið útilokar högg og styður við einstaklinginn um leið og mótstaða eykst og jafnvægi verður betra. Einnig er hægt að nota kúta og ganga þannig um með aukið öryggi án hættu á að falla og meiðast.

Heimildir: Moody o.fl., 2012, Elbar o.fl., 2013, Lim o.fl., 2014.

Styrkur

Með hreyfingu í vatni er hægt að auka styrk verulega án álags á liði og bein. Æfingar í vatni hafa áhrif á styrk sem auðveldar daglegar athafnir heima við. Vegna þéttleika vatns samanborðið við andrúmsloftið er vöðvavirkni mikil í vatninu. Gott viðnámið virkjar því vöðva betur en æfingar á landi. Sýnt er að aldraðir sem æfa í vatni vikulega eru sterkari í fótum og fótleggjum en þeir sem æfa á landi. Það auðveldar þeim daglegt líf eins og að ganga upp og niður stiga og standa upp og setjast . Það nægir að æfa einu sinni í viku í vatninu til að sjá aukningu á styrk. En þá þarf að æfa yfir langt tímabil. Hægt er að sýna fram á aukinn styrk og vöðvastækkun í efri og neðri líkama á aðeins einni æfingu á viku í vatni, ef æft er í 6 mánuði eða meira. Aukinn styrkur bætir að auki jafnvægið.

Heimildir: Sato o.fl., 2007, Sevimli o.fl., 2015, Ochoa Martinez o.fl., 2015, Ha o.fl. 2019.

þol

Með hreyfingu í vatni næst sami árangur í aukningu á þoli og í hreyfingu á landi en án álags á liði. Rannsóknir hafa sýnt aukna heilsuhreysti við hreyfingu í vatni, óháð því hvort æft er aðeins einu sinni í viku eða oftar . Æfingar í vatni hafa áhrif á lungnaþol sem aftur hefur áhrif á daglegt líf. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á hreyfingu í vatni sýna að þegar æft er þrisvar sinnum í viku í 8-12 vikur er hægt að bæta súrefnisupptöku um 13-15 prósent. Sem þýðir að þol lungna eykst og það eitt gerir daglega hreyfingu eins og að ganga á milli staða auðveldari. Hreyfing í vatni bætir afköst í hjarta og æðakerfi meira en æfingar á landi. Ástæðan er talin vera sú að hreyfing í vatni virkjar marga vöðvahópa til þess að vinna gegn mótstöðu vatnsins.

Heimild: Sato og fleiri, 2007,  Borgosz-Guzda o.fl. 2011, Kanitz o.fl.,2015.

Liðleiki

Það er mikilvægt fyrir alla og þá sérstaklega fyir aldraða að halda í hreyfanleika eins og kostur er og þannig ná að halda stjórn á stöðu líkamans. Þegar líkaminn missir þann eiginleika að vera uppréttur og fer að halla fram á við, versnar jafnvægi til muna. Rannsóknir hafa sýnt að með því að hreyfa sig í vatni einu sinni í viku í 12 mánuði bættu þátttakendur bæði jafnvægi og stöðu líkamans . Getan til að teygja sig fram virðist tengjast takmörkunum á réttri líkamsstöðu. Hægt er að kanna liðleikann með því að teygja sig í tær úr sitjandi stöðu. Aukinn liðleiki hefur áhrif á daglegt líf og þar með lífsgæðin almennt.  Rannsóknir hafa borið saman einstaklinga sem æfðu í vatni og á landi í 12 vikur. Þátttakendur sem æfðu í vatni bættu liðleika mun meir en þeir sem æfðu á landi. Einnig höfðu þátttakendur gaman af því að vera í vatninu og fannst hreyfingin í vatninu draga úr verkjum í liðum og lundin verða léttari.

Heimildir: Josephson o.fl., 2001, Douris o.fl., 2003, Moody o.fl., 2012.

Helstu kostir hreyfingar í vatni

Regluleg hreyfing í vatni yfir lengri tíma styrkir beinagrindarvöðva og líkamsstaðan verður beinni. Þol og styrkur eykst og jafnvægið verður betra. Auk þess hefur hreyfing í vatni góð áhrif á andlega líðan. Helstu kostir hreyfingar í vatni:

Flotmáttur vatns dregur úr álagi á alla liði og þá sérstaklega á hné og mjaðmir.

Þéttleiki vatnsins veitir stuðning á meðan á hreyfingu stendur.

Engin högg eru á liði þegar stigið er niður.

Þegar æft er í vatni og vatn nær að brjósti vegur líkaminn aðeins um 25-35% af eigin þyngd.

Blóðflæði verður skilvirkara í vatninu vegna þess að þyngdaraflið virkar ekki á líkamann í vatni.

Heimildir: Fukuie o.fl.,2019, Rafaelli o.fl.,2010, Ha o.fl.,2019.