Föll

Föll eru alvarlegt vandamál meðal aldraðra og teljast næst algengasta  ástæðan fyrir meiðslum hjá þessum aldurshópi. Einn af hverjum þremur einstaklingum 65 ára og eldri falla að minnsta kosti einu sinni á ári og það hefur yfirleitt í för með sér brot á ökla, úlnlið, handlegg eða mjöðm og hefur þannig mjög mikil áhrif á daglegt líf auk þess sem brotin eru oft á tíðum lengi að gróa. Regluleg hreyfing getur dregið úr föllum þar sem hreyfing bætir jafnvægi, liðleika og styrk. Æfingar í vatni eru notaðar til að styrkja jafnvægið um leið og þær  minnka hræðslu við fall. Það sem eykur hættu á falli eru slakir vöðvar í fótum, fótleggjum, hæg viðbrögð og minni liðleiki. En við æfingar í vatni er ekki hætta á að falla og verða fyrir meiðslum þar sem vatnið útilokar högg og styður við einstaklinginn um leið og mótstaða eykst og jafnvægi verður betra. Einnig er hægt að nota kúta og ganga þannig um með aukið öryggi án hættu á að falla og meiðast.

Heimildir: Moody o.fl., 2012, Elbar o.fl., 2013, Lim o.fl., 2014.